top of page
Search

Uppbygging á skapandi auðlindum framtíðarinnar

Nordic Design Resource

Í síbreytilegum heimi tækniframfara er nýsköpun talin forsenda þess að fyrirtæki geti viðhaldið samkeppnisforskoti. Sjálfbærar lausnir og skilvirkari þjónusta er meðal þeirra fjölmörgu þátta sem notandinn gerir sífellt meiri kröfur um. Skapandi hugsun hefur verið talin megindrifkraftur nýsköpunar þar sem aðferðir hönnunar eiga stóran þátt í að móta hugmyndir í átt að virðisaukandi lausnum. Á síðustu tíu árum höfum við orðið vör við gífurlegan vöxt á sviði hönnunar. Í dag er ekki hægt að afmarka hönnun við eitt svið skapandi greina heldur er hún nú talin lykill að vexti og nýsköpun þvert á allar greinar atvinnulífsins.


Skapandi auðlindir 21. aldarinnar Í kjölfar örrar þróunar á sviðum hönnunar á undanförnum árum átti Dansk Design Center frumkvæði að samnorræna rannsóknarverkefninu Nordic Design Resource árið 2017. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands og systurstofnanir á Norðurlöndunum. Um er að ræða eina af umfangsmestu rannsóknunum sem gerðar hafa verið á sviði hönnunar á Norðurlöndunum þar sem hönnunarauðlindir hafa í fyrsta skipti verið skilgreindar og kortlagðar á samnorrænum vettvangi. Hingað til hafa ekki verið til gögn sem gefa rétta mynd af umfangi hönnunar í samanburði við aðrar greinar atvinnulífsins. Sökum þess hefur verið erfitt að greina hvernig hönnun er að þróast og hvort mismunandi hönnunarauðlindir anni vaxandi eftirspurn. Rannsóknin markar upphaf umfangsmikillar kortlagningar norrænna hönnunarauðlinda og hefur ekki eingöngu fært okkur betri yfirsýn yfir hönnunargreinar á Norðurlöndunum heldur er hún jafnframt mikilvægur mælikvarði fyrir þróun á sviði hönnunar á komandi árum.


Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar starfa mun fleiri einstaklingar á sviði hönnunar en áður hefur verið haldið fram. Ein ástæða þess er að hingað til hafa mælingar einungis gert ráð fyrir þeim hönnuðum sem vinna innan skilgreindra hönnunarfyrirtækja en ekki þeim sem vinna innan fyrirtækja í blönduðum rekstri eða hjá hinu opinbera. Önnur ástæða er sú að hönnun hefur þróast hratt á síðustu árum og því vantar yfirsýn yfir allar þær nýju greinar sem svið hönnunar hefur nú upp á að bjóða. Niðurstöður kortlagningar norrænna hönnunarauðlinda sýna að árið 2018 störfuðu um það bil 250.000 manns á sviði hönnunar á Norðurlöndunum eða um 2% af heildarvinnuaflinu þar. Af þeim starfa um það bil 60% innan hefðbundinna hönnunargreina eins og grafískrar hönnunar og vöruhönnunar en 40% á sviði nýrra greina á borð við stefnumótandi hönnun, stafræna hönnun og þjónustu- og upplifunarhönnun. Til þess að hefta ekki vöxt hönnunargreina hér á landi er mikilvægt að tryggja að þróunin sé í takt við aukna eftirspurn nýrra hönnunargreina sem meðal annars taka mið af ört vaxandi tækniþróun og hnattvæðingu samfélagsins.


Þróun á hlutverki hönnunar Í dag er hlutverk hönnuðarins ekki bundið við hönnun á útliti vöru heldur felst það einnig í auknum mæli í því að sjá til þess að upplifun notandans af vörunni sé framúrskarandi, allt frá framleiðslu til förgunar. Samkeppnisforskot snýst nú ekki einungis um það hversu notendavæn og aðlaðandi varan sem þú kaupir er heldur einnig hversu notendavænt kaupferlið og þjónustan er í heild. Hönnunardrifna nálgun má því skilgreina sem skapandi ferli eða hugsunarhátt sem tekur tillit til upplifunar notandans í daglegu lífi og í öðrum sviðum samfélagsins.

Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru að hönnunarauðlindir eru skilgreindar út frá því hvernig einstaklingur nálgast og stýrir skapandi ferli. Hönnun er því ekki lengur aðeins lokaafurð eða þjónusta heldur ferli sem getur meðal annars leitt til nýrra kerfa eða viðskiptatækifæra og jafnvel hjálpað til við að leysa sumar helstu samfélagslegu áskoranir heimsins á komandi árum. Þeir einstaklingar sem starfa á sviði hönnunar eru ekki aðeins menntaðir hönnuðir heldur einnig oft einstaklingar með aðra menntun sem hafa tileinkað sér hönnunardrifna nálgun. Jafnframt má ætla að þeir hönnunardrifnu einstaklingar sem ekki hafa hlotið formlega menntun á sviði hönnunar stuðli að vexti hönnunarauðlinda þar sem þeir gera sér grein fyrir mikilvægi hönnunar og eru opnir fyrir því að vinna með hönnuðum í nýsköpunarferli. Í viðtölum við stjórnendur í hönnunarhagkerfinu á Íslandi kom fram að mikil þörf væri á því að efla samstarf hönnuða við aðrar greinar atvinnulífsins. Þá var sérstaklega bent á að efla þyrfti samstarf hönnuða við tækni- og vísindagreinar til þess að ýta undir möguleika á róttækri nýsköpun í íslensku samfélagi.


Hönnunarauðlindir á Norðurlöndunum Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar má greina svið hönnunar í sex mismunandi flokka. Almennt er dreifing flokkana nokkuð jöfn á Norðurlöndunum en þó er áhugavert að sjá að Ísland er töluvert eftir á hvað varðar skiptingu hinna hefðbundnu hönnunargreina og þeirra nýju. Meirihluti þeirra einstaklinga sem starfa á sviði hönnunar á Norðurlöndunum vinnur í einkageiranum eða um það bil 85% þar sem þeir skapa virði á mörgum mismunandi sviðum en þó mest á sviði grafískrar hönnunar og sjónrænna samskipta. Af þeim starfa 60% innan hefðbundna hönnunargreina eins og grafískri hönnun og vöruþróun. 40% starfa á sviði nýrra hönnunar greina eins og stafræn hönnun, stefnumótandi hönnun, þjónustu og upplifunar hönnun. Á íslandi mátti þó sjá að hlutfallið var 70/30 og erum við því svolítið eftir á hvað þessa þróun varðar. Af þessum 85% starfa einungis 12% hjá hinu opinbera og vinna að mestu leyti við rannsóknir og kennslu. Ein af nýrri greinum hönnunar snýr að stefnumótandi hönnun (e. strategic design) sem skapar virði með því að bæta stefnur fyrirtækja og stofnana með hönnunardrifna nálgun að leiðarljósi. Niðurstöður rannsóknarinnar benda því til þess að mikið sóknarfæri sé á því að efla vöxt hönnunar innan opinberra stofnana hér á landi.

Á myndinni hér að ofan má sjá hina sex mismunandi flokka hönnunar og hlutfall þeirra á Norðurlöndunum. Bláu flokkarnir sýna nýrri svið, sem eru stefnumótandi hönnun, stafræn hönnun og þjónustu- og upplifunarhönnun. Hinar hefðbundnu greinar eru grafísk hönnun og sjónræn samskipti, vöruhönnun og vöruþróun sem eru sýndar með rauðu, gulu og gráu. Líkt og tekið var fram hér að framan hefur orðið hröð framþróun á sviði hönnunar á síðustu árum og mikilvægt er að við fylgjumst vel með áframhaldandi þróun á komandi árum til þess að við getum tryggt að framboð nýrra hönnunargreina svari vaxandi eftirspurn eftir hönnun. Þar með getum við séð hvar við stöndum þegar kemur að uppbyggingu skapandi auðlinda framtíðarinnar með áherslu á nýsköpun og bætt lífsgæði alþjóðasamfélagsins.


Nánari upplýsingar um niðurstöður rannsóknarinnar má finna á nordicdesignresource.comRagna M. Guðmundsdóttir, annar stofnandi M/STUDIO er höfundur greinarinnar sem fyrst birtist í HA Design Mag - Tímarit um íslenska hönnun og arkitektúr. Ragna hafði yfirumsjón yfir rannsóknainni hér á landi í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands og Danish Design Center.Comentarios


bottom of page